Hæsta tilboð í danska FIH-bankann er aðeins hærra en 500 milljónir evra, um 76 milljarðar króna. Það er sama upphæð og skilanefnd Kaupþings skuldar Seðlabanka Íslands vegna láns sem hann veitti Kaupþingi í október 2008, með veði í eignarhlut bankans í FIH. Þetta kemur fram á vefmiðli Berlinske Tidende í dag. Dönsk sjónvarpsstöð fullyrti í gær að búið væri að ganga frá sölunni á FIH en það virðist orðum aukið.

Söluverðið er mun lægra en þeir 100 til 120 milljarðar króna sem talað var um að skilanefndin myndi fá fyrir eignarhlut sinn í bankanum í upphafi þessarar viku. Íslensk sendinefnd er sögð vera á leiðinni til Danmörku í dag til að reyna að lenda málinu á sem farsælastan hátt.

Alls hafa tvö tilboð borist í bankann frá fjársterkum aðilum. Það sem greint er frá hér að ofan og annað sem er aðeins lægra, en býður upp á auknar greiðslur ef FIH nær að skila ákveðinni arðsemi í framtíðinni. Samkvæmt dönskum miðlum vill Seðlabanki Íslands taka fyrra tilboðinu, en skilanefnd Kaupþings er hrifnari af því síðara. Ekki liggur ljóst fyrir af hverju það liggur svona mikið á að selja FIH og skilanefnd Kaupþings hefur neitað með öllu að tjá sig um málið.

Danska bankasýslan, Finiansiel Stabilitet, mun á endanum ákveða hver fær að eignast bankann. Þetta vald fékk bankasýslan þegar hún greip til aðgerða til að vernda danskt bankakerfi var bankanum þá veitt ríkisábyrgð upp að allt að 50 milljarða danskra króna, eða sem nemur um 1.000 milljörðum íslenskra króna. Ríkisábyrgðin rennur út um mánaðamót og vilja forsvarsmenn bankasýslunnar vera búnir að fá nýja eigendur að bankanum fyrir þann tíma, samkvæmt frásögn danska viðskiptablaðsins Börsen. Ef það gengur ekki óttast menn að viðskiptavinir FIH taki fé sitt út úr bankanum í stórum stíl með tilheyrandi tjóni fyrir bankann.