Val á suðurkóresku bíómyndinni Parasite sem besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni í Bandaríkjunum í byrjun vikunnar hefur leitt til um 150% netsöluaukningar á Patas Fritas kartöfluflögum frá galísíska þorpinu Arteixo á Spáni.

Félagið Bonilla a la vista, sem framleitt hefur flögur í nærri heila öld og flutt meðal annars út 40 tonn á ári til Suður-Kóreu, áttaði sig á að eitthvað hefði gerst í síðasta mánuði. Þá byrjaði fólk í stórum stíl að birta af sér myndum á samfélagsmiðlum með auðkennanlegum bláum og hvítum dollum með flögum félagsins, sem er með um 100 starfsmenn.

Þegar fyrirtækið skoðaði hvað olli auknum áhuga kom í ljós að flögur félagsins hefðu verið áberandi í atriði í myndinni Parasite, þar sem aðalsöguhetjurnar nutu sín við að borða snakkið og drekka viskí í húsnæði ríkrar fjölskyldu. Myndin fjallar um tilraunir fátækrar fjölskyldu til að komast innundir hjá ríkri fjölskyldu.

„Það var alger tilviljun að tindolla af flögum birtist í myndinni,“ segir talsmaður félagsins í að því er Guardian segir frá.

„Í raun uppgötvuðum við um að dollan væri í myndinni í gegnum vini og viðskiptavini sem tengdu við hana. Þetta kom okkur algerlega á óvart, en ánægjulega. Salan hefur aukist mikið, en á undarlegan hátt, aðallega á Spáni. Dreifingaraðilar okkar hafa beðið okkur um meira magn til að mæta eftirspurninni.“

Félagið Bonilla a la vista var stofnað árið 1932 af Salvador Bonilla sem fór að ferðast um Galisíu hérað til að selja flögurnar á bæjarhátíðum. Hann leiðir enn fyrirtækið í dag, 87 ára gamall. Í dag framleiðir það um 540 tonn af flögum á ári, þar af eru um 60 tonn seldar erlendis, þar af tveir þriðju í Suður-Kóreu, en markaðurinn þar opnaðist fyrir um fjórum árum.

Dollan kostar 13 evrur, eða sem samsvarar nærri 1.800 krónum á Spáni, en andvirði um 23 evra, eða um 3.180 krónur í Kóreu. Bonilla, sem hóf reksturinn með því að selja flögurnar af hjólinu sínu, er sjálfur ekki enn búinn að sjá Óskarsverðlaunamyndina.

„Ég verð að gera það því þetta er svo frábært atriði.“ Jafnframt hyggst Bonilla senda dollur af flögunum til leikstjórans Bong Joon-ho, svo þær geti setið við hlið Óskarsstyttunnar.