Bruce Dickinson, söngvari bresku þungarokkshljómsveitarinnar Iron Maiden, hefur stofnað fyrirtæki sem sér um viðhald og viðgerðir á flugvélum af ýmsum stærðum og gerðum. Stærstu vélarnar sem fyrirtæki hans ræður við eru farþegarþoturnar Boeing 767. Fyrirtækið heitir Cardiff Aviation Ltd. Rekstur er ekki hafinn en söngvarinn gerir sér vonir um að geta ráðið allt að þúsund manns á næsta einu og hálfu ári. Rokksöngvarinn er kominn með þak yfir reksturinn í iðngarðinum St. Athan í Cardiff sem sérhæfir sig í flugiðnaði.

Dickinson er flugmaður og hefur m.a. flogið hljómsveitinni um heiminn endilangan á Boeing 757-vél sem kallast „Ed Force One.“

Hann flug um nokkurt skeið vélum breska flugfélagsins Astraeus. Þegar það fór í þrot í fyrrahaust stefndi hann á að safna saman hópi fjárfesta og koma vélum þess í loftið á ný. Hann hafði væntingar um að ráða 1.500 manns til starfa, jafnvel stofna flugþjálfunarfyrirtæki í tengslum við reksturinn. Þessar væntingar hans hafa ekki gengið eftir, að sögn breska dagblaðsins Guardian.

Yfirvöld í Wales hafa tekið vel í hugmyndir Dickinson, sér í lagi Wedina Hart, viðskiptaráðherra Wales. Hún segir í samtali við blaðið reksturinn geta orðið lyftistöng fyrir efnahagslíf Wales.