Japanski raftækja- og tæknifyrirtækið Sony verður stærsti hluthafi Olympus með kaupum á 11,5% hlut í fyrirtækinu. Kaupverðið nemur 50 milljörðum jena, jafnvirði 80 milljarða íslenskra króna.

Greint var frá kaupunum í dag. Í þeim felst að fyrirtækin stofna saman nýtt fyrirtæki sem Sony mun eiga 51% hlut í. Sony mun sömuleiðis fá mann í stjórn Sony.

Með viðskiptunum stígur Sony skref inn í heilbrigðistækni en fyrirtækin munu vinna saman að framleiðslu og þróun lækningatækja. Olympus er risi á þeim markaði með 70% hlutdeild. Þá er ekki útilokað að fyrirtækin muni vinna saman að framleiðslu á stafrænum myndavélum, að því er segir í netútgáfu bandaríska dagblaðsins New York Times .

Bæði fyrirtækin hafa glímt við erfiðleika síðustu misserin. Sjónvarpsframleiðsla hefur brennt gat í efnahagsreikning Sony síðastliðin fjögur ár. Í fyrra reyndi fyrirtækið að snúa við blaðinu og fóta sig á heilbrigðisgeiranum.

Olympus hefur hins vegar verið í öllu verri málum en stjórnendur fyrirtækisins viðurkenndu í fyrra að þeir hafi falið tap þess síðastliðinn áratug með bókhaldsbrellum, kaupum á fyrirtækjum og ráðgjafagreiðslum. Stjórn fyrirtækisins var látin fjúka þegar málið komst upp og var Olympus að færa niður eignir upp á jafnvirði 1,3 milljarða dala.