Það á ekki að koma á óvart að fyrirtæki eins og Sony, sem hefur verið rekið með tapi fjögur ár í röð, skuli grípa til þess að segja upp fólki og selja eignir til að rétta við reksturinn. Nú síðast var það 37 hæða skýjakljúfur í New York sem fékk að fara, en þar hefur Sony verið með höfuðstöðvar sínar í Bandaríkjunum. Alls vinna um 1.500 starfsmenn Sony í byggingunni.

Kaupandinn greiddi Sony 1,1 milljarð dollara fyrir bygginguna en eftir að áhvílandi lán hafa verið greidd upp fær fyrirtækið um 770 milljónir dollara í sinn hlut.

Tapreksturinn má að mörgu leyti rekja til aukinnar samkeppni frá Samsung, minni eftirspurnar eftir sjónvörpum og sterks gengis jensins. Fyrirtækið spáir 223 milljónum dollara hagnaði í lok tímabilsins en árið áður skilaði það mettapi.

Hlutabréf Sony ruku upp um 12% í kjölfar tilkynningar um sölu á byggingunni.

Þrátt fyrir breytt eignarhald þá mun Sony áfram vera með ýmsa starfsemi í byggingunni, þar á meðal verður tónlistararmur Sony, Sony Music Entertainment, þar áfram.