Auðkýfingurinn George Soros hefur enga trú á að leiðtogar evruríkjanna nái að leysa úr skuldavandanum á evrusvæðinu á fundi sínum í vikulokin. Hann segir engu að síður mikilvægt að lausnir líti dagsins ljós á fundinum sem geti komið í veg fyrir endalok evrunnar.

Soros, sem gjarnan er kennt um að hafa fellt breska pundið snemma á tíunda áratug síðustu aldar, mælir með því að evruríkin stofni sérstakan sjóð sem muni kaupa spænsk og ítölsk ríkisskuldabréf.

Í norska netmiðlinum e24.no í dag er rifjað upp að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Soros lætur málefni Evrópu sig varða. Það ætti ekki að vera furða enda rennur honum blóðið til skyldunnar, ef svo má segja. Hann fæddist í Búdapest í Ungverjalandi árið 1930 og hefur látið í sér heyra eftir að skuldakreppan skall á í Evrópu.

Soros hefur jafnframt bent á að hann telji líkur á að skuldakreppan á Grikklandi muni ná hámarki í haust. Verði ekkert að gert fyrir október verði hins vegar efnahagslíf í Þýskalandi orðið svo veikburða að erfiðara en áður verði að leysa úr skuldavanda myntbandalagsins.