„Allt í einu eru sósíaldemókratar Sjálfstæðisflokksins orðnir sætasta stelpan á ballinu,“ sagði Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi í dag. Nú fer fram 2. umræða um Icesave-samninginn sem liggur fyrir Alþingi.

Vigdís lýsti yfir andstöðu sinni við Icesave-samkomulagið. Hún muni kjósa gegn samningnum í atkvæðagreiðslu sem á að fara fram síðar í dag. Þá gagnrýndi hún Sjálfstæðisflokkinn og sagði hann hafa skipt um skoðun í málinu í gærmorgun. „Tugir ef ekki hundruðir hafa sagt sig úr flokknum,“ sagði Vigdís.

Atkvæðagreiðsla eftir 2. umræðu fer fram síðar í dag, að loknum umræðum og þingflokksfundum.