Mannvit hefur sótt um lóð fyrir 244.000 rúmmetra olíubirgðastöð á Reyðarfirði, fyrir hönd Atlantic Tank Storage og var fjallað um umsóknina í umhverfisnefnd Fjarðarbyggðar í dag. Birgðastöðin er hönnuð fyrir geymslu á almennum olíuvörum þ.m.t.  bensíni, gasolíu og jarðolíu og er gert ráð fyrir að í stöðinni verði um 13 geymar. Áætlaður byggingartími er 15-18 mánuðir og er gert ráð fyrir 120 til 150 ársverkum við byggingu stöðvarinnar.

Í tilkynningu kemur fram að þegar byggingunni er lokið munu þrír til fimm starfsmenn annast reksturinn. Stöðin verður rekin sem tollvörugeymsla og birgðastöð fyrir olíuvörur sem eru á leið á markaði í Ameríku og Evrópu og hún getur einnig nýst í tengslum við fyrirhugaða olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Gert er ráð fyrir að stöðin geti bæði tekið á móti jarðolíum og unnum olíuvörum eins og bensíni.

Reyðarfjörður hefur marga kosti fyrir þjónustu sem þessa segir í tilkynningu. Þar  er höfn fyrir stór olíuskip með 14,3 m djúpristu. Ennfremur hefur Reyðarfjörður öfluga dráttarbátaþjónustu, gott slökkvilið og almenna tækniþjónustu. Síðast en ekki síst er Reyðarfjörður vel staðsettur með tilliti til olíumarkaða í Bandaríkjunum og Evrópu enda liggur Reyðarfjörður vel við skipaleiðum til stórra olíuhafna í Rotterdam, Mongstad og Murmansk. Fjarðabyggð hefur skapað gott umhverfi fyrir iðnað að þessu tagi með skipulögðu iðnaðarsvæði fyrir hafnsækna starfssemi og aðlaðandi umhverfi fyrir fjárfesta.