Íslensk-bandaríski skyrframleiðandinn Icelandic Provisions lauk nýverið 3,5 milljóna dollara skuldabréfaútboði, en fjárhæðin samsvarar ríflega 440 milljónum íslenskra króna.

Systurfélag Mjólkursamsölunnar (MS), MS eignarhald ehf., fer með tæplega 15% eignarhlut í Icelandic Provisions en auk MS eignarhalds er félagið í eigu íslenskra og erlendra fjárfesta.

Ari Edwald, fyrrverandi forstjóri MS, stýrir í dag Ísey útflutningi og MS eignarhaldi en félögin voru stofnuð um erlenda starfsemi MS við aðskilnað erlendrar starfsemi frá þeirri innlendu.

Félögin um erlendu starfsemina eru sjálfstæð félög en eignarhald þeirra er það sama og hjá MS. Ari er einn þriggja Íslendinga sem sitja í stjórn Icelandic Provisions en hann deilir stjórnarformennsku félagsins með Bandaríkjamanninum Jon Flint.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Ari ný yfirstaðið skuldabréfaútboð þjóna tvennum tilgangi, annars vegar að fjármagna rekstur þar sem félagið sé enn ekki farið að skila hagnaði og hins vegar að fjármagna áframhaldandi uppbyggingu og fjárfestingar. Hann segir skuldabréfin vera brúarlán frá hluthöfum en skuldabréfin eru breytanleg og er gert ráð fyrir að þeim verði breytt í hlutafé síðar.

„Skuldabréfaútgáfan er í raun fyrri hluti fjármögnunar sem unnið er að, en síðar er stefnt að hlutafjáraukningu. Það þótti ákjósanlegt að gefa út breytanleg skuldabréf til hluthafa í þessum fyrri hluta fjármögnunarinnar enda skýrist verðlagning á hlutafé félagsins betur á síðari hluta ársins.

Framundan eru töluverðar fjárfestingar vegna aukinnar framleiðslu og fjölgunar vörutegunda sem kalla á aukið fjármagn,“ segir Ari og bætir við að áætlanir geri ráð fyrir að fjárflæði af starfseminni verði jákvætt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .