Á morgun opnar fyrsti áfangi SOUK ? nýrrar verslunarmiðstöðvar í Stokkhólmi, nánartiltekið í hinni þekktu göngugötu Drottningagötu. Í fyrsta áfanganum hefst starfsemi í 4.000 fermetra álmu. Í helmingi álmunnar verða verslanirnar Topshop og Topman, en verslanirnar í SOUK eru fyrstu flaggskipsverslanir þeirra utan Bretlands. Á sama stað lokaði stórverslun Debenhams 15. janúar síðastliðin. SOUK er í eigu Baugs Group.

Í tilkynningu frá Baugi kemur fram að hinir 2.000 fermetrarnir munu hýsa ný ungtískuvörumerki svo sem Pilgrim, Svea, Denim for Girls, edc, Smycka, Friis, Pashion og Lollipops Paris. Þar að auki verða nokkur hátískunöfn frá London, þar á meðal Oasis, Warehouse og Jane Norman. Í ágúst n.k. opna 2.000 fermetrar í viðbót, þar sem 10 vörumerki í viðbót verða í boði.

?Við lítum á þetta sem stærsta og djarfasta tískufjárfestingin í Stokkhólmi í langan tíma,? segir Åke Hellqvist, forstjóri SOUK í tilkynningunni. ?Auk þess er SOUK fyrsta verslunarmiðstöð í Stokkhólmi og einnig í allri Skandínavíu, sem einbeitir sér alfarið að ungum, tískumeðvituðum markhópi.?

?Það ætti eiginlega ekki að vera hægt að loka stórverslun og opna nýja verslunarmiðstöð á níu vikum,? segir Hellqvist. En allt gekk samkvæmt áætlun þökk sé góðu skipulagi og áætlanagerðar, hraustra og seigra byggingaverktaka, og leigjenda og vörumerkjaeigenda sem trúa á viðskiptahugmyndina.

Nafnið SOUK er ættað úr Austurlöndum nær, en þar er ?souk? miðstöð líflegra viðskipta þar sem metravara, fatnaður, skartgripir og krydd ganga kaupum og sölum. Á sama hátt verður SOUK í Drottningagötunni staður þar sem verslun blandast við skynjun, kynni og upplifun. Auk verslana verður ýmislegt annað að finna í SOUK: stóra nagla- og hárgreiðslustofu sem mun bera nafnið SOUK Haircare, kaffihúsið Coffeehouse by George, og svið fyrir sýningar og uppákomur. Einnig verður verslun Beyond Retro með fötum og öðrum vörum frá öndverðri tuttugustu öldinni.

?Markmið okkar er að skapa samkomustað fyrir yngri kynslóðina, sem er nú þegar mjög áberandi í miðborg Stokkhólms,? skýrir Hellqvist.