Greiningardeild Arion baka spáir 1% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í mars. Gangi spáin eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 2,3% samanborið við 1,9% í febrúar. Ársverðbólgan án áhrifa skattahækkana ríkisins verður 2,1%. Ef áhrifin af niðurfellingu útvarpsgjaldsins eru jafnframt tekin úr VNV er undirliggjandi verðbólga um 2,5%. Áhrif vegna útsöluloka koma fram í mars. Þá mun eldsneytisverð eitt og sér leiða til 0,36% hækkunar verðlags í mars.

„Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að verðbólgan mælist 0,6% í apríl, 0,2% í maí og 0,4% í júní en nánar er gerð grein fyrir forsendum hér fyrir neðan.

Helstu þættir í marsspánni:

  • Útsöluverð gengur til baka. Sterk áhrif vegna útsöluloka mældust í mars (áhrif til hækkunar 0,4%). Greiningardeild gerir ráð fyrir að útsöluverð gangi að öllu leyti til baka í mars. Heildaráhrif +0,40%.
  • Hrávöruverðshækkanir skila sér til landsins. Hrávöruverðshækkanir úti í heimi hafa skilað sér til landsins og munu gera það áfram í marsmælingu Hagstofunnar. Þannig mun eldsneyti skila 0,36% verðbólgu í mars. Þá gerum við einnig ráð fyrir frekari hækkunum á matvörum. Heildaráhrif +0,45%.
  • Húsnæðisliðurinn hækkar á ný. Áhrif vegna hækkunar húsnæðisliðar í febrúar munu vara í mars einnig. Við gerum þó ráð fyrir minni áhrifum í mars. Heildaráhrif +0,10%.
  • Flugfargjöld lækka. Við gerum ráð fyrir að hækkun flugfargjalda í febrúar gangi til baka í mars. Talsverð óvissa er þó til hækkunar þar sem hækkandi eldsneytisverð gæti hafa smitast út í flugfargjöldin í þessum mánuði. Heildaráhrif -0,10%.“