Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins spáir 1,5% hagvexti á evrusvæðinu á þessu ári og hækkar þannig hagspá sína um 0,2% frá febrúarmánuði. BBC News greinir frá þessu.

Í spánni kemur fram að ástæða hækkunarinnar sé ódýrari olía, veikari evra og örvunaraðgerðir Seðlabanka Evrópu. Segir einnig að hraðari vöxtur muni auka verðbólgu og fækka atvinnulausum. Spá framkvæmdastjórnarinnar fyrir árið 2016 er hins vegar óbreytt, en þá spáir hún 1,9% hagvexti á svæðinu.

Í Grikklandi fara horfurnar versnandi að mati framkvæmdastjórnarinnar, og spáir hún nú 0,5% hagvexti á svæðinu í stað 2,5% áður. Drifkraftur hækkunarinnar kemur hins vegar frá Þýskalandi, stærsta hagkerfinu innan Evrópu, en þar er spáð 1,9% vexti á þessu ári og 2% á því næsta.