IFS Greining spáir góðu fyrsta ársfjórðungsuppgjöri hjá Össuri, sem birtist uppgjör sitt á morgun. „Við gerum ráð fyrir áframhaldandi góðri sölu á stoðtækjum á helstu mörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu. Við reiknum einnig með góðri sölu á stuðningsvörum í Bandaríkjunum en hins vegar minni vexti í Evrópu eins og raunin var á 4. fjórðungi. Vöxturinn á 1. fjórðungi í ár verður um 5% samkvæmt okkar spá. Hafa ber í huga að söluvöxtur á 1F10 var mjög sterkur. Í lok 3. fjórðungs var ný vara formlega tekin í notkun innan bionic línunnar, Proprio foot. Spennandi verður að heyra hvernig gengur að selja þá vöru en hún getur skipt miklu máli fyrir Össur á næstunni,“ segir í spánni.

Ennfremur segir:

„Á 1. fjórðungi reiknum við með 20,0% EBITDA framlegð. Búast má við að fjármagnsliðir verði neikvæðir um 7 m.USD, m.a. vegna styrkingar EUR á móti USD á fjórðungnum. Hagnaður eftir skatta á fjórðungnum verður 5,8 m.USD samkvæmt okkar spá.

Halda ráðgjöf – verðkennitölur hækka
Í nýlegu verðmati (frá 10. desember 2010) ráðlögðum við fjárfestum að halda bréfum sínum í félaginu. Sú ráðgjöf er óbreytt.

Hanger, stærsti sölu- og dreifingaraðilinn
Hanger (NYSE: HGR), stærsti sölu- og dreifingaraðili á vörum Össurar, skilaði góðu uppgjöri í síðustu viku og hækkuðu stjórnendur m.a. afkomuáætlun fyrir árið 2011.  Um 6% af sölu Össurar fer til Hanger.

Lítil skuldsetning – smærri yfirtökur skoðaðar á næstunni
Skuldakennitölur Össurar eru hagstæðar. Nettó v.b. skuldir á móti EBITDA ársins 2011 eru um 1,7x. Fjármögnun félagsins er hagstæð, 145 punkta álag á Libor/Euribor. Félagið er í stöðu til að greiða hluthöfum arð. Ekki er þó hægt að búast við arðgreiðslu þar sem félagið hefur ekki stefnu um að greiða út arð. Fram hefur komið hjá stjórnendum Össurar að smærri fyrirtækjakaup verði skoðuð á næstu mánuðum.“