Vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans er í takt við væntingar. Greining Íslandsbanka telur stýrivexti verða hækkaða úr 6% um 0,5 prósentustig í tveimur áföngum á næsta ári og verði þeir komnir í 6,5% á sama tíma að ári. Fyrri hækkunin gæti orðið snemma á næsta ári eða skömmu eftir að niðurstaða kjarasamninga liggur fyrir. Árið 2015 hækka stýrivextir svo aftur og fara þeir þá í 6,75%, samkvæmt stýrivaxtaspá Greiningar.

Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að verðbólga muni á næstu misserum verða þrálátari en Seðlabankinn spáir og muni bankinn bregðast við þeirri þróun með stýrivaxtahækkunum samhliða því að slakinn hverfur úr hagkerfinu sem ætti að vera á næstu tveim árum. Spáum við því að bankinn muni hækka vexti sína enn frekar á árinu 2015 og fara þá með stýrivextina upp í 6,75%.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum síðan í nóvember í fyrra eða á samtals níu vaxtaákvörðunarfundum.