Isavia hefur gert ráð fyrir að um tvær milljónir farþega ferðist um Keflavíkurflugvöll á þessu ári. Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia segir að rætist það megi búast við að um 400 þúsund ferðamenn komi til landsins á árinu.

Greiningardeildir bankanna gera ráð fyrir allt 800 þúsund ferðamönnum á þessu ári en fjöldi ferðamanna fór yfir tvær milljónir á ári fyrir faraldurinn.

Guðmundur Daði segir áætlun Isavia vera varfærna. „Við höfum lagt áherslu á að skoða þetta út frá því hve mörg sæti til landsins eru til sölu og hvað flugfélögin eru búin að staðfesta. Það eru mörg flugfélög sem segjast vera jákvæð fyrir vetrinum en munu ekki taka ákvörðun fyrr en í júlí eða ágúst. Það þarf því ekki mjög mikið að falla með okkur svo að þessar spár hjá greiningardeildunum rætist,“ segir hann.

Þó séu allar forsendur fyrir kraftmikla endurreisn eftir faraldurinn. „Ef við horfum á hvers konar áfangastaður Ísland er, hvaða innviðir eru til staðar, hvernig við tókumst á við COVID og að við erum með tvö stöndug heimaflugfélög í Icelandair og Play erum við mjög bjartsýn á að endurheimtin á Íslandi verði hröð,“ segir Guðmundur Daði.

„Við finnum það hjá erlendu flugfélögunum sem og hjá Play og Icelandair að það er mikill áhugi á Íslandi. Við höfum ekki hitt flugfélag sem telur Ísland ekki álitlegan áfangastað. Sum hafa sagt að þetta sé hreinlega hinn fullkomni áfangastaður eftir COVID.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .