Íslandsbanki spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni lækka um 0,5% í janúar frá mánuðinum á undan. Ef spá bankans rætist mun 12 mánaða verðbólga hjaðna frá fyrri mánuði úr 2,0% í 1,9%. Þannig yrði verðbólgan nokkuð undir 2,5% markmiði Seðlabanka Íslands og mun hún ekki hafa mælst lægri í yfir tvö ár, gangi spá bankans eftir. Íslandsbanki greinir frá þessu á vef sínum.

Að sögn bankans eru verðbólguhorfur næsta kastið góðar, bæði vegna stöðugrar krónu, væntinga um hóflegar launahækkanir og aukins jafnvægis á íbúðamarkaði. Bankinn spáir því að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans út árið 2020 en muni svo mælast örlítið yfir markmiði á árinu 2021.