Greiningardeild Arion banka spáir því að kvikmyndin um Abraham Lincoln, forseta Bandaríkjanna á árunum 1847 til 1849, muni hreppa Óskarsverðlaunin í ár. Blásið verður til verðlaunahátíðarinnar 24. mars næstkomandi. Þar munu níu kvikmyndir keppa um titilinn besta mynd nýliðins árs. Auk Lincoln eru þetta myndirnar Amour, Argo, Beasts of the Southern Wild, Django Unchained, Life of Pi, Les Misérables, Silver Linings Playbook og Zero Dark Thirty.

Greiningardeildin flettir engum kerlingabókum í Óskarsverðlaunaspá sinni, les hvorki í lambaspörð né innyfli. Þvert á móti. Í Markaðspunktum deildarinnar er beitt spálíkani hagfræðingsins Andrew Bernard sem byggði á að greina tölfræði fyrri verðlaunaafhendinga allt frá árinu 1984 til að spá fyrir um úrslit komandi verðlauna.

Í spálíkaninu eru sigurlíkur mynda metnar á grundvelli annarsvegar frammistöðustika (fjölda tilnefninga til Óskarsverðlauna, fjölda Gullhnatta sem myndin sigraði í aðdraganda Óskarsverðlaunanna o.s.frv.) og hinsvegar einkennastika (hvort myndin sé gamanmynd, hvort hún gerist í fortíðinni, hvort hún sé byggð á raunverulegum atburðum, hvort aðalpersónan deyi o.s.frv.). Greiningardeildin bendir á nokkur einkenni sigurmynda síðustu árin. Þau eru:

  • Þær höfðu að jafnaði hlotið 10,5 tilnefningar til Óskarsverðlauna, en tapmyndir 6,7.
  • Þær höfðu að jafnaði unnið 2,9 Gullhnetti, en tapmyndir aðeins 0,9.
  • Aðalpersónan steig á hestbak í 30% sigurmynda, en aðeins 10% tapmynda.
  • Aðalpersónan er með e.k. snilligáfu í 20% sigurmynda, en aðeins 5% tapmynda.
  • Gamanmynd hafði aldrei hlotið Óskarsverðlaun.

Greiningardeildin birtir spálíkanið í Markaðspunktunum og bendir á að Bernard hafi spáð rétt fyrir um 18 af þeim 20 verðlaunaafhendingum sem voru í gagnasafni hans. Það hafi reyndar klikkað árin 1990 þegar Driving Miss Daisy (sigurlíkur 45,6%) vann Born on the Fourth of July (52,9%), og þegar Silence of the Lambs (10,6%) vann öllum að óvörum árið 1992. Þá hafi Bernard verið frekar kokhraustur þegar hann spáði kvikmyndinni The Aviator sigri árið 2005 með 85% líkum. Vonbrigðin urðu hins vegar nokkur þegar Million Dollar Baby hreppti hnossið – sem átti á pappírunum aðeins 13,2% líkur á að sigra.

Spátafla greiningardeildar Arion banka og sigurlíkur í %

  1. Lincoln -26,5%
  2. Les Misérables - 25,0%
  3. Life of Pi - 20,9%
  4. Argo - 10,9%
  5. Silver Linings Playbook - 7,8%
  6. Django Unchained - 4,8%
  7. Amour - 1,9%
  8. Zero Dark Thirty - 1,9%
  9. Beasts of the Southern Wild - 0,3%