Alþjóðabankinn spáir því að hagvöxtur á heimsvísu verði að meðaltali 2,2% á þessu ári í stað 2,4% eins og áður var spáð. Nokkuð misjafnt er hverjar breytingarnar eru eftir löndum. Sem dæmi býst bankinn við því að hagvöxtur í Kína verði 7,7% í stað 8,4% eins og hann hafði áður gert ráð fyrir.

Stjórnvöld í Kína hafa unnið að því hörðum höndum að hægja á hjólum efnahagslífsins og kæla hagkerfið og skýrir það niðurfærslu hagspárinnar. Á sama tíma hefur dregið úr eftirspurn eftir kínverskum vörum á helstu mörkuðum, s.s. í Bandaríkjunum og í Evrópu, að því er fram kom í breska ríkisútvarpinu ( BBC ).