Greiningardeild Arion banka spáir því að vísitala neysluverðs standi í stað milli mánaða en Hagstofan birtir mælingu á henni 29. september næstkomandi. Hægt er að skoða greiningu Arion banka nánar hér . Greiningardeild Íslandsbanka kemst að sömu niðurstöðu .

Spá Arion banka

Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan hækka úr 0,9% í 1,4% en sú mikla hækkun skýrist að mati greiningardeildarinnar  af því að á sama tíma í fyrra lækkaði verðlag um 0,4% og dettur sú mæling því nú úr árstaktinum.

Einnig kemur fram að: „Lítill verðbólguþrýstingur er í kortunum næstu mánuði en við spáum 1,6% verðbólgu í lok árs og eru þá tæplega þrjú ár liðin frá því að verðbólgan fór undir markmið Seðlabankans. Verðlagning á skuldabréfamarkaði endurspeglar sömuleiðis litlar verðbólguvæntingar og almennt virðist verðlagning gera ráð fyrir framhald verði á styrkingu krónunnar og lítilli verðbólgu vel inn á næsta ár.“

Þeir spá að helstu hækkanirnar verði á fötum og skó vegna útsöluáhrifa sem ganga til baka. Einnig spá þeir hækkun húsnæðisverðs og á tómstundum og menningu.

Á móti koma hækkanir eins og lækkun flugfargjalda til útlanda, póstur og sími, hótel og veitingastaðir  og húsgögn og heimilisbúnaður. Aðrir liðir hafa minni áhrif.

Spá Íslandsbanka

Í spá Íslandsbanka kemur fram að vísitala neysluverðs (VNV) verði óbreytt í september frá fyrri mánuði. Á sama tíma í fyrra lækkaði VNV um 0,4% og eykst 12 mánaða taktur verðbólgunnar þar með úr 0,9% í 1,3% gangi spáin eftir. Fer verðbólga þar með aftur yfir neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Þar kemur einnig fram að: „ Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa lítið breyst frá síðustu spá okkar. Eftir sem áður er útlit fyrir að verðbólga haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans út árið 2017. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast allhratt og vera nærri 4,0% efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs bankans á seinni hluta ársins 2018. Hagstofan birtir mælingu VNV kl. 09:00 þann 29. september næstkomandi.

Útlit er fyrir að VNV hækki fremur lítið til áramóta, og má að mestu þakka það styrkingu krónu sem við eigum von á að haldi áfram næsta kastið, þótt nokkuð dragi úr styrkingarhraðanum að mati okkar. Við spáum 0,1% hækkun VNV í október,  0,2% lækkun í nóvember og 0,3% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,5% í árslok.“