Stýrivextir munu standa óbreyttir fram á næsta ári en þá verða þeir hækkaðir um tvígang um 0,25 prósentur. Aftur munu þeir hækka um 0,25 prósentur árið 2015 og stýrivextir fara við það í 6,75%, gangi eftir stýrivaxtaspá Greiningar Íslandsbanka. Deildin býst við því að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 6% á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans eftir viku.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag:

„Við teljum að vegna þess hve hægur efnahagsbatinn er um þessar mundir, og vegna þess að verðbólgan mun að okkar mati áfram verða svipuð og nú á næstu mánuðum, muni peningastefnunefnd Seðlabankans einnig halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi sínum í desember næstkomandi. Við teljum hins vegar að peningastefnunefndin muni hækka stýrivexti bankans á næsta ári þegar hagvöxtur hefur glæðst og komið hefur fram að verðbólgan er þrálátari en felst í núverandi verðbólguspá bankans. Spáum við því að bankinn muni á næsta ári hækka vexti í tvígang um 0,25 prósentur í hvort sinn. Við spáum síðan frekari vaxtahækkun árið 2015, eða um 0,25 prósentur.“