Seðlabankinn gerir ráð fyrir að fjárfesting í netþjónabúum og stóriðjuframkvæmdum, eins og í Helguvík, muni seinka í nýrri þjóðhagsspá sem kom út í dag. Í þessu felst að ekki er gert ráð fyrir virkjunum í Neðri-Þjórsá og fjárfesting í stóriðju verði nokkru minni árin 2011 og 2012 en fyrri spá gerði ráð fyrir.

Fjárfesting undir sögulegu lágmarki

„Í spám Seðlabankans sem hafa birst á þessu ári hefur verið dregin upp sú mynd að fjárfesting sem tengist álversframkvæmdum myndi vega upp á móti verulegum samdrætti annarrar fjárfestingar. Svo er enn í þeirri spá sem hér er kynnt. Gert er ráð fyrir fjórðungsvexti atvinnuvegafjárfestingar á næsta ári, sem er drifinn áfram af tvöföldun stóriðjufjárfestingar milli ára. Nokkrum vexti er ennfremur spáð á árinu 2011 og lítils háttar samdrætti á árinu 2012. Hlutur atvinnuvegafjárfestingar í landsframleiðslu verður engu að síður undir sögulegu lágmarki allt spátímabilið,“ segir í Peningamálum.