Greiningardeild Arion banka hefur birt árlega spá sína um sigurvegara Óskars hátíðarinnar sem fram fer á sunnudaginn. Deildin spáir að Three Billboards Outside Ebbing, Missouri fái Óskarsverðlaun sem besta kvikmyndin.

Níu myndir eru tilnefndar sem besta kvikmyndin, en þær eru: Call Me by Your Name, Darkest Hour, Dunkirk, Get Out, Lady Bird, Phantom Thread, The Post, The Shape of Water, og Three Billboards Outside Ebbing, Missouri.

Spá greiningardeildar Arion banka byggist meðal annars á spálíkani Andrew B. Bernard, sem árið 2005 útbjó nokkuð einfalt probit-líkan. Spágeta líkansins á þeim tíma, reiknuð afturvirkt, reyndist vera 90% og spáði líkanið rétt fyrir í 18 af 20 skiptum.

Bernard rannsakaði fjöldann allan af breytum og forspárgildi þeirra á árunum 1984 til 2004, en breyturnar byggðu annars vegar á frammistöðustikum (t.d. velgengni á verðlaunahátíðum) og hins vegar á einkennisstikum (t.d. hvort myndin byggði á bók eða leikriti, hvort aðalhlutverkið deyi ótímabærum dauða eða setjist á hestbak).

Eftir sem árin liðu tók líkan Bernard hins vegar að missa marks sífellt oftar. Vegna þessa tók Greiningardeildin sig til og reyndi eftir bestu getu að betrumbæta líkanið. Hefur deildin birt Óskársspá undanfarin fjögur ár.

Samkvæmt spálíkani greiningardeildarinnar eru 52,9% líkur á að Three Billboards Outside Ebbing, Missouri fái Óskarinn. Líkan Bernard spáir á hinn bóginn að The Shape of Water fari heim með Óskarinn.

Þá spáir deildin að Gary Oldman eigi sigurinn vísan fyrir túlkun sína á Winston Churchill í Darkest Hour og Frances McDormand fyrir leik sinn í myndinni Three Billboards Outside Ebbing, Missouri. Fyrir besta leik í aukahlutverki karla spáir deildin að Sam Rockwell fari heim með styttuna gylltu, einnig fyrir leik sinn í Three Billoards og að Allison Janney beri sigur úr býtum fyrir leik sinn í I, Tonya. Spá greiningardeildarinnar fyrir besta leik í aðal- og aukahlutverki hafa ávallt gengið eftir.