Greining Íslandsbanka spáir 35-42% hækkun Úrvalsvísitölunnar frá ársbyrjun til ársloka í nýrri spá sem deildin var að senda frá sér. Út frá spá um afkomu félaganna í ár, verðkennitölum sem byggja á spánni, verðmötum sínum á fyrirtækjunum og almennri stöðu á hlutabréfamarkaðinum draga Íslandsbankamenn þá ályktun að búast megi við því að markaðurinn eigi eftir að hækka lítillega til viðbótar út árið.

"Við spáum því að hækkun Úrvalsvísitölunnar frá ársbyrjun til ársloka verði 35-42%. Þetta jafngildir 1% lækkun til 4% hækkun til áramóta. Við eigum þannig einungis von á lítilsháttar hækkun hlutabréfaverðs á fjórða ársfjórðungi, þ.e. um 2%, ef stuðst er við miðju spábilsins. Ekki er hins vegar hægt að útiloka lítilsháttar lækkun. Spáin er mjög háð því hvernig gengur hjá stærstu félögunum en þau fimm stærstu vega samtals um 80% í Úrvalsvísitölunni," segir Greining Íslandsbanka í fréttaskeyti sínu.