Hagstofa Íslands birtir janúarmælingu á vísitölu neysluverðs þriðjudaginn 29. janúar. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitalan muni standa óbreytt. Í Hagsjá hagfræðideildarinnar segir að gangi spáin eftir muni ársverðbólgan fara niður í 3,9% og vera innan efri vikmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands í fyrsta sinn síðan í maí 2011.

Bráðabirgðaspá Hagfræðideildar gerir ráð fyrir að vísitalan hækki um 0,6% í febrúar, hækki um 1% í mars og um 0,6% í apríl. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan verða 3,2% í apríl.

„Í ljósi þess að hækkun vísitölunnar milli mánaða á þessu tímabili í fyrra var talsvert meiri en nú er reiknað með, er útlit fyrir að ársverðbólgan hjaðni talsvert á allra næstu mánuðum. Þessi grunnáhrif snúast hinsvegar við í maí þar sem óvænt lækkun vísitölunnar mældist í þeim mánuði í fyrra. Nú má hinsvegar gera ráð fyrir talsverðri hækkun í maí gangi veiking krónunnar undanfarinn mánuð ekki til baka þar sem líklegt er að gengisáhrifin komi fram að fullum krafti með vorinu. Að öðru óbreyttu er því líklegt að þróun ársverðbólgunnar snúist við af talsverðum krafti í upphafi sumars,“ segir í Hagsjánni.