Að sögn Jóhans Óla Guðmundssonar fjárfestis hefur stefnan verið sett á að reka fullbúið fjarskiptafyrirtæki hér á landi undir nafni Hive. Hann benti á að þau félög sem nú væru að sameinast undir félaginu væru nú þegar með mikið þjónustuframboð á landsvísi og það yrði eflt enn frekar.

?WBS hefur verið rannsóknar- og þróunarfyrirtæki í nokkur ár og hefur verið að búa sig undir að finna lausnir fyrir fjórðu kynslóðina þar sem nokkuð augljóst þykir að þriðja kynslóðin nær engri fótfestu sem máli skiptir í heiminum. Menn eru búnir að bíða eftir henni í nokkur ár en hún er dýr og þá fyrst og fremst vegna leyfisgjalda sem eru mjög há víða um heim. Svo held ég að menn sjái það að GSM kerfið sem burðarkerfi annar ekki þeirri þörf sem markaðurinn gerir kröfu til. Það leggur auðvitað grundvöllinn að fjórðu kynslóðinni sem fer fram á allt öðrum tíðnum og er miklu burðarmeira dreifikerfi.? Jóhann Óli tók fram að þeim væri ekkert að vanbúnaði að setja upp kerfi fyrir þriðju kynslóð en þeir hefðu metið það svo að það myndi ekki svar akostnaði miðað við þá möguleika sem ný kerfi gefa.

Jóhann Óli benti ennfremur á að stóru fyrirtækin, sem framleiða notendabúnaðinn fyrir fjarskiptaheiminn, séu á fullu við að framleiða nýja burðarmeiri síma fyrir þessa dreifitækni. Sagðist hann gera ráð fyrir að menn framleiði síma sem verði jafnvígir á fleiri en eitt kerfi. Það skapi aðlögunarhæfni á meðan verið er að flytja neytendur á milli kerfa.

- En þarf miklar fjárfestingar í Hive?

?Allnokkrar og hafa verið í gegnum árin í þessu þróunarferli. Við skulum ekki horfa framhjá því, sem er það merkilega, að þetta skref inn í fjórðu kynslóðina að þetta er íslenskt hugvit.? Jóhann Óli benti á að rannsóknar og þróunardeild WBS hefði verið stýrt af Dr. Sigfúsi Björnssyni og með honum hafi starfað hópur innlendra og erlendra sérfræðinga.

?Við munum sjá veltu á þessu sameinaða félagi fara nánast lóðrétt upp vegna þess að við munum bæta það sem er nú þegar í gangi hjá félögunum, bæði tæknilega og þjónustuna. Um leið og fjórða kynslóðin tekur yfir munu verða verulegar lækkanir á gjöldum vegna þess að þar fer saman miklu meiri burðargeta og hraði og minni fjárfestingakostnaður í samanburði við þær kynslóðir sem hafa verið á undan.?

Jóhann Óli hefur ekki haft mikinn rekstur með höndum hér heima á Íslandi undanfarin ár eftir að hann seldi Securitas. Hann hefur þó átt öldrunarheimili Sóltún í gegnum félagið Öldung og sagði hann að sá rekstur hefði gengið mjög vel. Þar fyrir utan hafur hann verið með talsvert mikinn rekstur út um alla Evrópu, mest á svið fasteignaverkefna.