Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag að október 2008 kæmi aftur yrði Icesave-frumvarpið fellt á þingi. Þá spáði hann því að menn myndu dauðsjá eftir því. Líklegasta niðurstaðan yrði sú að íslensk stjórnvöld færu aftur til viðsemjendanna til að biðja um gamla samninginn aftur.

Steingrímur mælti fyrir frumvarpi um Icasave-ríkisábyrgð á Alþingi í morgun. Þegar hann flutti framsöguræðuna kallaði Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, utan úr þingsal að samningarnir væru ömurlegir. „Uppgjöf!" kallaði hann.

Steingrímur sagði að þessi niðurstaða, sem nú lægi fyrir, væri erfið fyrir okkur öll en um leið óumflýjanleg. Hann sagði enn fremur að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að ljúka þessu máli.

Búist er við að umræður um Icesave standi yfir á Alþingi fram eftir degi.