Velta á skuldabréfamarkaði í dag var 25,6 milljarðar króna. Skuldabréfavísitalan GAMMA:GBI hækkaði um 0,8%.

Skuldabréfavísitalan GAMMAi: Verðtryggt hækkaði um 1% í 14,6 milljarða króna viðskiptum og GAMMAxi: Óverðtryggt hækkaði um 0,2% í 9,6 milljarða króna viðskiptum.

Miklar hækkanir

Ekkert lát virðist vera á veltu skuldabréfa en markaður hefur verið sérstaklega líflegur síðustu vikur og skuldabréf, sérstaklega verðtryggð, hækkað mikið í verði. Í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa kemur fram að hækkun lengri verðtryggðra bréfa hafi verið um 3,39% og styttri hækkað um 1,74%.

Segir að spákaupmenn séu allsráðandi á markaðnum. „Þeir hafa tekið stórar stöður í löngum ríkistryggðum bréfum og ýkja þar með kröfulækkun þeirra bréfa. Þeir treysta á að aðrir fjárfestar fylgi þeim eftir þ.á.m. lífeyrissjóðir og fleiri sem eru að færa fé af innlánsreikningum til fjárfestingar í ríkistryggðum skuldabréfum.

Stöðnun ríkir  í íslenska hagkerfinu og því þykir líklegt að SÍ lækki vexti verulega á næsta vaxtaákvörðunardegi  22. september n.k. Lítil ástæða er til að halda vöxtum háum þar sem litlar líkur eru á að gjaldeyrishöftin verði afnumin á næstunni og því sjá höftin um að verja krónuna næstu misserin.“