Þann 24.október næstkomandi munu IceSave-reikningseigendur halda til fundar við skiptastjóra Landsbankans á Guernsey og leggja fram áætlun þess efnis að ná öllu því sparifé sem tapaðist til baka. Skiptastjóri Landsbankans á Guernsey hefur sagt að aðeins verði hægt að greiða 30 pens fyrir hvert pund sem var inn á sparireikningum Landsbankans.

Meðal þeirra sem lagt verður til er að Heritable Bank, sem einnig er í eigu gamla móðurfélags Landsbankans, greiði Landsbankanum á Guernsey skuldir sínar við síðarnefnda bankann. Heritable fór í greiðslustöðvun í kjölfar þjóðnýtingar Landsbankans.

Talsmaður hópsins, The Landsbanki Guernsey Depositors Action Group, segir í samtali við Telegraph að mikilvægt sé að eitthvað jákvætt komi út úr starfi þeirra til að Guernsey verði áfram talinn öruggur staður til að fjárfesta á.

Breska ríkisstjórnin hefur heitið því að ábyrgjast IceSave-innistæður að fullu. Allar innistæður Heritable Bank voru fluttar til ING Direct, sem var einn helsti keppinautur Landsbankans þegar kom að netinnlánareikningum.

Innistæðueigendur á Guernsey njóta hins vegar ekki sambærilegrar verndar, en eyjurnar Jersey og Guernsey eru ekki hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, þrátt fyrir að þar búi breskir ríkisborgarar sem borgi sína skatta til Bretlands, meðal annars af vaxtatekjum á innlánareikningum. Sökum þess að eyjarnar eru utan efnahagssvæðisins þurfa íslensk stjórnvöld ekki heldur að ábyrgjast innistæður á Guernsey.