Samþykkt var á Alþingi í morgun að senda stjórnarfrumvarp um sparisjóðina til þriðju umræðu. Þingmenn ræddu fram og aftur um sparisjóðina þegar þeir gerðu grein fyrir atkvæðum sínum.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði sparisjóðina ekki geta keppt á almennum markaði. Meira þurf að leggja þeim til eigi að fjölga sparisjóðum og auðvelda fjárfestum að byggja þá upp.

Steingrímur J. Sigfússon, eftirmaður Árna Páls á ráðherrastól, lagði á hinn bóginn á það áherslu að í grunninn verði sparisjóðirnir hreinir viðskiptabankar en ekki í fjárfestingarstarfsemi eins og þeir voru fyrir hrun.

Þurfa að leggja til samfélagsins

Á meðal þess sem frumvarpið kveður á um er að sparisjóðirnir skuli afmarka samfélagslegt hlutverk sitt við tiltekið landsvæði og ráðstafa að lágmarki 5% af hagnaði liðins árs fyrir skatt til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu.

Þá skulu sparisjóðirnir setja sér reglur um viðskipti með hluti í sparisjóðnum, stofnfjárbréf eða hlutabréf, sem samþykktar skulu af Fjármálaeftirlitinu. Heimilt er að sameina þá sem eru sjálfseignarstofnun og skal endurgjald til stofnfjáreigenda hans vera í samræmi við hlutdeild stofnfjár í eigin fé sparisjóðsins eins og það var samkvæmt efnahagsreikningi við sameiningu. Ef fyrir hendi er eigið fé umfram stofnfé í sparisjóðnum skal það leggjast óskert við óráðstafað eigið fé hins sameinaða sparisjóðs. Sé hins vegar um neikvætt óráðstafað eigið fé að ræða í sparisjóði sem sameinast annarri sjálfseignarstofnun skal stofnfé lækkað til jöfnunar á því áður en til samruna kemur. Við samrunann má óráðstafað eigið fé sameinaðs sparisjóðs ekki verða lægra en samanlagt jákvætt óráðstafað eigið fé þeirra sparisjóða var fyrir samruna.

Frumvarp um sparisjóði