Sparisjóðirnir eru fyrsti kostur þeirra sem hyggjast skipta um banka, skv. nýrri könnun. Sparisjóðirnir voru með hæstu einkunn í flestum þáttum mælinganna. Styrkja stöðu sína á flestum sviðum frá síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sparisjóða.

Samkvæmt nýrri rannsókn á ímyndarvísitölu fjögurra helstu fjármálafyrirtækja landsins, Glitnis, Kaupþings, Landsbankans og Sparisjóðanna, styrkja Sparisjóðirnir stöðu sína mest af bönkunum fjórum. Þá halda þeir stöðu sinni frá því í fyrra sem fyrsti kostur meðal þeirra sem íhuga að skipta um banka. Ímyndarvísitalan er mæld tvisvar á ári og segir til um viðhorf fólks til ólíkra þátta í þjónustu bankanna og hver upplifun þeirra er almennt af fyrirtækjunum.

Rannsóknin eru unnin af Fortuna hugsanarannsóknum ehf. og er þríþætt.

Fyrst eru mældir almennir þættir sem skipta viðskiptavininn máli, svo sem viðmót starfsfólks, tillitsemi og nýjungar. Annar hlutinn tekur á þeim áhrifaþáttum sem lúta að upplifun viðskiptavinanna og er þar spurt um ánægjuleg og skilvirk samskipti, heimabanka, markaðsefni og fleira. Að lokum eru fjármálatengdir þættir kannaðir, s.s. viðskiptakjör, fyrirgreiðslur, fríðindi og vaxtaákvarðanir.

Sparisjóðirnir voru með hæstu einkunn bankanna á flestum þáttum mælinganna eða í 37,5 prósent tilvika.

„Ímynd Sparisjóðanna einkennist öðru fremur af góðri þjónustu þar sem hagsmunir viðskiptavinarins eru settir ofar gróðasjónarmiðum eigenda. Samskipti viðskiptavina og starfsmanna bankanna eru talin vera ánægjulegust og skilvirkust hjá Sparisjóðunum og eru starfsmenn þeirra taldir sýna mesta tillitssemi. Þá eru þeir einnig taldir stilla hverskonar gjaldtöku af viðskiptavinum, s.s. vöxtum, í frekara hóf en samkeppnisaðilarnir," segir í tilkynningunni.