Hagnaður Sparisjóðs Mýrasýslu var 733 milljarðar fyrir skatta og 635 milljónir eftir skatta árið 2007.

Eigið fé Sparisjóðsins jókst um 78,85% frá fyrra ári m.a. vegna breyttra reikningsskilaaðferða í kjölfar innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla, eftir því sem segir í tilkynningu frá sparisjóðnum.

Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu fjármagns var 1,84% árið 2007 en 2,15% árið 2006 en vaxtamunur vaxtaberandi eigna var 2,32% árið 2007 en 2,59% árið 2006.

Framlag í afskriftarreikning útlána nam 578 milljónum á árinu sem er hækkun frá 215 milljónum króna árið 2006. Í árslok 2007 eru 596 milljónir í afskriftareikningi útlána sem er 1,72% af útlánum og veittum ábyrgðum sparisjóðsins.

Arðsemi eigin fjár var 10,02% árið 2007 miðað við 43,72% árið 2006.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum er 50,02% árið 2007 miðað við 25,38% fyrir árið 2006. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum er nú 2,8%  sem er sama hlutfall og á fyrra ári.

Efnahagur og eigið fé samstæðunnar

Heildareignir samstæðunnar eru 47 milljarðar miðað við 36 milljarða króna í lok árs 2006, hafa þær vaxið um 31,8% milli áranna 2006 og 2007.

Innlán SPM hafa aukist um 20,4% á árinu og nema 17 milljörðum króna í árslok 2007.

Útlán samstæðunnar hafa aukist um 30,02% á árinu og nema þau 34 milljörðum króna í árslok 2007.

Eigið fé Sparisjóðs Mýrasýslu var 6,3 milljarðar þann 31. desember 2007 en var 5,2 milljarðar í árslok 2006, aukningin er 21,61% þegar búið er að leiðrétta uppgjör 2006 til samræmis við alþjóðlega reikningskilastaðla.

Eiginfjárhlutfall samstæðunnar samkvæmt CAD-reglum er 11,64% 31. Desember 2007 en var 11,7% þann 31. desember 2006.

Fengu ekki leyfi til að sameinast

Á árinu 2007 stóð til að sameina Sparisjóð Skagafjarðar og Sparisjóð Siglufjarðar. Það tókst ekki þar sem tilskilin leyfi hafa ekki fengist frá Fjármálaeftirlitinu en vonast er til að þau fáist í byrjun árs 2008.

53% arður af stofnfé

Í uppgjöri SPM segir að stjórn sparisjóðsins leggji til að greiddur verði arður sem nemur 53% af stofnfé eða 267.661 millj. kr. í arð á árinu 2008 vegna ársins 2007.

Árið 2008 ekki eins gott og árið 2007

„Töluvert óvissuástand er á fjármálamörkuðum um þessar mundir og ljóst er að afkoma Sparisjóðs Mýrasýslu verður ekki eins góð og á síðasta ári. Töluvert uppbyggingarstarf er framundan við að efla nýjar einingar innan samstæðunnar í Skagafirði og Reykjavík. Óvissa varðandi fjármögnunarmöguleika setur einnig mark sitt á íslensk fjármálafyrirtæki en endurfjármögnunarþörf Sparisjóðs Mýrasýslu er lítil næstu tvö árin sem kemur sér vel við slíkar aðstæður,“ segir í uppgjöri sparisjóðsins.