Sparisjóður Norðfjarðar var fyrstur sparisjóðanna til að óska eftir sérstöku framlagi úr ríkissjóði til styrktar eiginfjárstöðu sjóðsins en sjóðurinn skilaði inn umsókn 19. janúar síðastliðins. Miðað við eiginfjárstöðu sjóðsins um áramótin 2007/2008 ætti hann rétt á ríflega 200 milljóna króna framlagi mið að við fullt framlag.

Að sögn Vilhjálms Pálssonar sparisjóðsstjóra hefur sjóðurinn unnið að því að styrkja fjárhagsgrundvöll sinn og hefur þegar leitað til heimamanna. Þannig hafa Fjarðarbyggð, Lífeyrissjóðurinn Stapi, Samvinnufélag útgerðarmanna og stofnfjáraðilar þegar lagt sjóðnum til 250 milljónir króna í nýtt stofnfé og er það nánast að fullu greitt. Að sögn Vilhjálms myndi tilleg ríkissjóðs koma eiginfjárhlutfalli sjóðsins (CAD) upp í 14%.

Sparisjóður Norðfjarðar átti 1,8% hlut í Sparissjóðsbankanum en hafði ekki tekið þátt í hlutafjáraukningu þeirri sem þar var um áramótin 2007/2008. Sparisjóðurinn átti ekkert í Kistu (sem var eignarhaldsfélag sparisjóðanna um hlut þeirra í Exista) en tap af margvíslegum skuldabréfum hjó í eiginfjárstöðuna.

Eins og áður sagði var Sparisjóður Norðfjarðar fyrsti sjóðurinn til að sækja um og var umsókn hans á borði fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þegar síðasta ríkisstjórn féll.