Hagnaður Sparisjóðs Vestmannaeyja fyrir skatta nam 414,0 milljónum króna en 342,8 milljónum króna að teknu tilliti til reiknaðra skatta.  Hreinar vaxtatekjur námu 318,7 milljónum, hreinar þjónustutekjur 94,8 milljónum og tekjur af fjáreignum o.fl. 445,6 milljónum.

Hreinar rekstrartekjur eru því 859,1 milljónir.  Heildargjöld að meðtöldum afskriftum og virðisrýrnun eigna er 445,1 milljónir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sparisjóðnum.

Bókfært eigið fé Sparisjóðsins í árslok 2007 er 1.848,7 m.kr. og hækkaði á árinu um 60,1%, aðallega vegna hagnaðar 342,8 m.kr. og stofnfjáraukningar 350,5 m.kr.

Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum var 11,1% en má lægst vera 8% af útreiknuðum áhættugrunni.  Í árslok var niðurstaða efnahagsreiknings 12.185,7 m.kr. og hækkaði um 21,3% á árinu.

Innlán og verðbréfaútgáfa Sparisjóðsins námu í árslok 8.775,6 m.kr. og hækkaði um 14,2% á árinu.

Heildarútlán námu í árslok 7.765,5 m.kr. og hækkuðu um 15,1% á árinu.

Langstærstu útlánaflokkarnir voru, eins og áður til einstaklinga og íbúðalán eða tæplega 77,0%.  Hlutur atvinnustarfsemi er um 21,2% og til opinberra aðila 2,1%.  Á árinu varð aðallega sú breyting að hlutfallslega hækka lán til einstaklinga og smærri atvinnustarfsemi mest.