Eftir 12,4 milljarða tap fyrir skatta á fyrri helmingi ársins hvarf um helmingurinn af eigin fé SpKef og CAD-eiginfjárhlutfallið lækkaði óþægilega mikið, svo ekki sé fastar að orði kveðið, eða úr 22,2% í 10,3%. Hjá stórum og öflugum viðskiptabanka með markvissa áhættustýringu myndu menn að vísu telja 10,3% CAD-hlutfall vel ásættanlegt (CAD-hlutfall Landsbankans er t.d. 10,3%) enda þyrfti ansi mikið að ganga á hjá slíkum banka til þess að hlutfallið færi niður fyrir 8%, sem er lögboðið lágmark.

Svo þetta sé sett í samhengi er rétt að benda á að heildareignir Landsbankans námu 3.970 milljörðum í lok júní en heildareignir SpKef námu á sama tíma 90,5 milljörðum króna, eða 2,2% af eignum Landsbankans.

Mikið tap af hlutabréfum

Allt öðru máli gegnir þegar eiginfjárhlutfall lítils fjármálafyrirtækis eins og SpKef fer niður í 10,3% og ljóst er að sjóðurinn þolir hreinlega ekki mikinn taprekstur á síðari helmingi ársins svo hann fari ekki að reka tærnar í lögbundið lágmark um CAD-hlutfall sem myndi þá kalla á aukningu á stofnfé eða á aðrar aðgerðir. Þótt ekki standi til að mála skrattann á vegginn er engu að síður líklegt að einhverjir velti fyrir sér hvert tapþol SpKef í raun sé, ekki síst í ljósi þess að við höfum þegar dæmi um sparisjóð, Sparisjóð Mýrasýslu, sem tapaði 5,6 milljörðum á fyrri helmingi ársins og missti CAD-hlutfallið niður fyrir núll.

SpKef er að vísu um 70% stærri sparisjóður en SPM. En margt er þó líkt með skyldum, eins og þar stendur. Þannig gildir um báða sparisjóðina að gríðarlegt tap þeirra á fyrri helmingi ársins má fyrst og fremst rekja til lækkunar á hlutabréfum í eigu þeirra, en einnig til taps af rekstri hlutdeildarfélaga, sem flest starfa á eða tengjast fjármálamarkaðnum, og svo í þriðja lagi til stóraukinna framlaga á afskriftareikning vegna hugsanlegra útlánatapa.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .