SpKef, sem áður hét Sparisjóðurinn í Keflavík, skuldar Seðlabankanum og öðrum fjármálafyrirtækjum 13,9 milljarða króna, að því er segir í frétt Fréttablaðsins. Þegar SpKef var stofnaður á grunni Sparisjóðsins í Keflavík í apríl 2010 kom fram í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að öll innlán og eignir gamla sjóðsins yrðu flutt í þann nýja. Umfang innlánanna er í dag 57,6 milljarðar króna.

Ríkið tryggir þau að fullu í krafti yfirlýsingar sem gefin var út haustið 2008. Heildarskuldir SpKef eru hins vegar metnar á 75,6 milljarða króna, eða 18 milljörðum meira en nemur innlánum sjóðsins. Þar munar mest um skuldir við fjármálafyrirtæki og Seðlabanka Íslands sem nema 13,9 milljörðum króna og mun stærstur hluti þessarar skuldar vera við Seðlabankann.