Sparisjóður Mýrasýslu (SPM) hefur fengið heimild til að leita nauðasamninga og hefur Garðar Garðarson hrl. verið skipaður tilsjónarmaður með nauðasamningunum.

Samkvæmt frumvarpi því sem nú hefur verið samþykkt í Héraðsdómi Vesturlands býður sparisjóðurinn kröfuhöfum 67,6% upp í kröfur sínar.

Enginn rekstur fer nú fram undir merkjum SPM en Nýi Kaupþing hefur tekið yfir allan rekstur og innlánasafnið.

Að sögn Sigurðar R. Arnalds hrl., formanns bráðabirgðastjórnar SPM, er þess vænst að niðurstaða við tilboðinu liggi fyrir um miðjan nóvember. Gert er ráð fyrir að greitt verði með hlutabréfum í Nýja Kaupþingi og skuldabréfum útgefnum af bankanum. Í hópi kröfuhafa eru þýskir bankar sem með þessu móti myndu eignast hlut í Nýja Kaupþingi.