Tvö spænsk börn hafa verið lögð inn á heilbrigðisstofnun á Spáni í meðferð við farsímafíkn. Frá þessu er greint á vef Guardian. Foreldrar krakkanna lögðu þau inn vegna þess að börnin gátu ekki lifað eðlilegu lífi án síma.

Samkvæmt frétt Guardian stóðu krakkarnir tveir sig illa í námi og sviku fé út úr ættingjum sínum til að fjármagna símnotkun sína. Þau eyddu að meðaltali 6 klukkustundum á dag í að tala í símann, senda smáskilaboð og spila leiki í símum sínum. Þau höfðu bæði átt síma í 18 mánuði áður en þau voru lögð inn á meðferðarstofnun vegna símafíknar.

„Þau áttu bæði í miklum erfiðleikum með að lifa eðlilegu lífi,“ hefur Guardian eftir stjórnanda barna- og unglingageðdeildar Lleida, sem er á Norðaustur-Spáni.

Guardian hefur einnig eftir lækninum José Martínez-Raga, sem sérhæfir sig í meðferð fíkla, að vel megi vera að aðeins toppurinn á ísjakanum sé að koma í ljós. „Þetta gæti orðið hættulegt í framtíðinni,“ segir José. „Börnin lifa í þessu tilviki eingöngu fyrir símana. Þau fara að svíkja peninga út vegna þessa, líkt og eiturlyfjafíklar gera. Þau gætu leiðst út í glæpi vegna fíknarinnar.“

Niðurstaða rannsóknar Umboðsmanns barna í Madríd á síðasta ári var að 30% barna á aldrinum 11-17 ára „liðu miklar þjáningar“ þegar síminn þeirra var tekinn af þeim.