Mikil sveifla hefur verið á gjaldeyrismarkaði frá opnun í morgun og það sem af er degi hefur krónan veikst um 0,86% og stendur gengisvísitalan nú í 115,1 stigum. Að sögn sérfræðinga er það umsögn Hagfræðistofnunar um þjóðhagsleg áhrif aflareglu þorskveiða sem tilkynnt var í gær eftir lokun markaða sem er að gára vatnið á gjaldeyrismarkaði í dag. Hagfræðistofnun mælir með að aflareglan sem nú er 25% verði minnkuð verulega og ásókn í þorsstofninn dreginn saman.


Miklar vangaveltur hafa verið um þorskveiðikvótann í kjölfar þess að Hafró tilkynnti fyrir skömmu að fýsilegt væri að skera þorskveiðikvótann niður um 33% eða í 130 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári úr 178 þúsund tonnum. Aðgerð sem myndi minnka útflutningsverðmæti sjávarútvegsins um 25 milljarða króna. Auk þess sem slíkur niðurskurður kvótans myndi hafa mikil áhrif á sjávarútveg sérstaklega í sjávarbyggðum landsbyggðarinnar myndi niðurskurðurinn hafa neikvæða áhrif á hagvöxt næsta árs. Skýrsla Hagfræðistofnunar sem kynnt var í gær eykur líkurnar á því að stjórnvöld fari að tillögum Hafró þegar þau tilkynna kvóta næsta fiskveiðiárs um miðjan næsta mánuð.


Þegar Hafró tilkynnti um ráðgjöf sína í byrjun júní lækkaði krónan um 2,6% innan dagsins. Sérfræðingar telja að krónan verði viðkvæm fyrir fréttum af þorskinum allt þar til ákvörðun stjórnvalda mun liggja fyrir.