Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að kannski sé tími til kominn að endurskoða aðkomu Seðlabankans að stýrivaxtaákvörðun. Þetta sagði hann í umræðum um störf þingsins í dag.

„Ég vil gera hér að umstalsefni ákvörðun Seðlabankans frá því í morgun um óbreytta stýrivexti. Mér er þessi ákvörðun algjörlega óskilajnleg og það kemur fram að helstu rök séu þau að búist sé við auknum hagvexti upp á 2,3 prósent, sagði Þorsteinn. Hann benti á að í nýlegri skýrslu ASÍ væri einungis gert ráð fyrir 1,7 prósent hagvexti.

Þorsteinn spurði hvort 2,3% hagvöxtur væri ástæða til þess að halda stýrivöxtum óbreyttum þegar fjárfesting væri í sögulegu lágmarki. „Hvað ætlar seðlabankinn að viðhalda hér lengi kyrrstöðu og deyfð,“ spurði Þorsteinn. „Ég velti því alvarlega fyrir mér hvað bankinn er að fara með þessu,“ sagði Þorsteinn.

Þá sagði hann að Seðlabankinn hótaði aðilum vinnumarkaðarins hækkun stýrivaxta ef kjarasamningar yrðu ekki seðlabankanum þóknanlegir. „Það er kannski bara tími til að það verði endurskoðað aðkoma hans að vaxtaákvörðun hér í landinu,“ sagði Þorsteinn.