Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur að í komandi kjaraviðræðum sé mikilvægt að horfa til þróunar ráðstöfunartekna og kaupmáttar þeirra, fremur en að horfa aðeins á mælikvarða skatthlutfalla.

Þetta kom fram í máli ráðherrans á morgunfundi Landsbankans þar sem staða og horfur á íslenska vinnumarkaðnum voru ræddar.

Skattleysismörk hærri hér á landi

Bjarni sagði að þegar litið væri yfir þróun persónuafsláttar þyrfti að horfa til lengri tíma.

„Ég get alveg séð fyrir mér breytingu á því hvernig við látum persónuafsláttinn breytast milli ára inn í framtíðina en það er ekki hægt að leggja mat á hugmyndir sem eru ekki útfærðar,“ sagði ráðherra og vísaði þar til umræðu um að hækka lágmarkslaun yfir 400 þúsund krónur og gera þau skattfrjáls.

Sagði ráðherra ljóst að ef þetta kæmi til framkvæmda tæki við skattahamar þar sem flestar krónur sem fólk bætti við sig rynnu í skatt og jaðarskattar yrðu um 70-80%, að því gefnu að skattkerfið ætti áfram að skila sömu tekjum. „Ef verið er að tala um hreina skattalækkun, sem yfirleitt hljómar vel í mín eyru, að lækka skatta, þá skulum við ræða það.“

Launajöfnuður á Íslandi mestur í Evrópu

Fjármála- og efnahagsráðherra ræddi um launajöfnuð og benti á að mælingar frá árinu 2016 sýndu að á Íslandi væri launajöfnuður mestur í Evrópu. „Við höfum engar tölur í höndunum um að launaójöfnuður sé að aukast. Við erum þvert á móti með vísbendingar um að launajöfnuður sé að vaxa,“ sagði ráðherra.

Hvað snerti þá sem væru í efstu lögum hins opinbera hefði verið unnin skýrsla fyrr á árinu og farið yfir þróun þeirra hópa sem heyrðu undir kjararáð, sem var lagt niður í sumar. Hefði niðurstaðan verið sú að þessir hópar hafi ekki skilið sig að frá öðrum hvað snerti þróun launa.