Þrátt fyrir að einkaneysla Japana hafi aukist lítillega í lok síðasta árs, er hún enn mjög lítil, samkvæmt efnahagskýrslu sem ríkisstjórn landsins kynnti í gær.

Í skýrslunni er bent á að enda þótt japanska hagkerfið haldi áfram að vaxa hægt og rólega um þessar mundir, eftir stöðnun í næstum áratug, þá séu horfur ekki endilega góðar á því að neysla japansks almennings taki við sér.

Japansbanki þyrfti því að færa mjög góð rök fyrir því ef hann ákveður að hækka vexti sína í næsta mánuði, en mjög skiptar skoðanir eru á meðal hagfræðinga hvort líklegt sé að bankinn taki slíka ákvörðun. Einkaneysla jókst um 1,1% síðustu þrjá mánuði árið 2006 eftir að hafa minnkað um 1,1% milli júlí og september á sama ári.