Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur ásamt Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins farið þess á leit við Staðlaráð Íslands að það hafi umsjón með gerð staðals sem notaður verður til að sannreyna hvort launa- og starfsmannastefna stofnana og fyrirtækja samræmist stefnu um launajafnrétti kynja og jafnrétti við ráðningu og uppsagnir.

Atvinnurekendur sem uppfylla skilyrði staðalsins munu svo geta fengið formlega vottun fyrir því að launa- og starfsmannastefna þeirra samræmist lögum um jafnrétti kynjanna.

Frá þessu er greint á vef Samtaka atvinnulífsins.

Samkomulagið var undirritað á ársþingi Alþýðusambandsins.

„Vonir standa til þess að staðallinn verði atvinnurekendum stuðningur og hvatning til þess að uppfylla ákvæði laga um jafnan rétt karla og kvenna. Þeir muni sjá ávinning í því að fela óháðum vottunaraðilum úttekt á launa- og starfsmannastefnu sinni á kerfisbundinn hátt því þannig verði hafið yfir allan vafa að þeir uppfylli ákvæði laganna,“ segir á vef Samtaka atvinnulífsins.