Stóru viðskiptabankarnir þrír – Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki – högnuðust um tæplega 50 milljarða króna til samans á fyrstu níu mánuðum ársins. Hagnaður bankanna á þriðja ársfjórðungi var um 15 milljarðar borið saman við tæpa 24 milljarða á sama tíma í fyrra.

Frá bankahruni haustið 2008 hafa bankarnir bókfært 518 milljarða í hagnað eftir skatta til samans, eða sem nemur rétt undir fjórðungi af landsframleiðslu. Hagnaðurinn fyrstu þrjá fjórðunga ársins er talsverður, en dregst þó saman um rúmlega fjórðung eða 17,3 milljarða milli tímabila. Samanlögð arðsemi heildareigna var 1,5% borið saman við 2,2% í fyrra, og arðsemi eigin fjár lækkar úr 18% í 10%. Nýting eigna í tekjusköpun og hagnaður eigenda á rekstri bankanna hefur því minnkað milli tímabila.

Lakari afkoma bankanna á yfirstandandi ári, borið saman við fyrstu þrjá ársfjórðunga fyrri ára, ber þess merki að áhrif óreglulegra þátta, s.s. virðisbreytinga útlána og sala á eignum gömlu bankanna á borð við hlutabréf, á afkomu sé á undanhaldi, átta árum eftir hrun. Hlutdeild hreinna virðisbreytinga útlána í hagnaði bankanna helmingast þannig eftir fyrstu níu mánuði ársins frá sama tíma í fyrra.

Óreglulegar tekjufærslur eru þó enn fyrirferðarmiklar, eins og sést t.d. með sölu Borgunar og Valitors á hlutabréfum í Visa Europe. Einskiptishagnaður var á bilinu 20-25% af hagnaði fyrstu níu mánuði ársins, en árið 2014 voru um 80% af hagnaði bankanna í óreglulegum tekjuliðum.

Þetta þýðir að efnahagsreikningar bankanna og rekstrarniðurstöð­ ur fara að endurspegla rekstur sem telst til hefðbundinnar bankastarfsemi í ríkari mæli en áður. Sterkur grunnrekstur verður því mikilvægari forsenda góðrar afkomu. Hin raunverulega mynd af stöðu bankakerfisins og áskorunum kemur því æ skýrar í ljós.

3% vaxtamunur

Hreinar vaxtatekjur viðskiptabankanna námu 71,9 milljörðum fyrstu níu mánuði ársins og jukust um 8,4% milli tímabila. Aukning í vaxtatekjum skýrist af hærra vaxtaumhverfi, hækkun eigin fjár og aukningu í vaxtaberandi eignum, einkum útlánum til viðskiptavina. Þóknanatekjur voru rúmlega 26 milljarðar borið saman við 25,8 milljarða í fyrra.

Landsbankinn hafði hæstu vaxtatekjurnar en lægstu þóknanatekjurnar, þó svo að þóknunartekjur bankans jukust um 15% milli tímabila, á meðan Arion banki hafði hæstu þóknanatekjurnar en lægstu vaxtatekjurnar. Vaxtamunur bankanna nam 2,2% og hækkaði um 0,07% milli tímabila, en á þriðja ársfjórðungi er hann um 3%. Hrein virðisbreyting var rúmlega 18 milljarðar til samans.

Lánabækur bankanna fyrstu níu mánuði ársins nema um 2.238 millj­örðum og hafa þær vaxið um tæplega 80 milljarða eða 3,7% frá áramótum. Þó svo að útlánavöxtur sé hóflegur og undir hagvexti eru skilyrði fyrir útlánavexti til staðar, sem sést í því að hækkandi eignaverð – einkum fasteignaverð – skapar veðrými á efnahagsreikningum heimila og fyrirtækja.

Dreifing áhættu fer vaxandi og lánabækurnar endurspegla vel samsetningu hagkerfisins. Vægi ferðaþjónustunnar og íbúðalána eykst í lánasöfnum bankanna, en t.a.m. er ferðaþjónustan um 13% af lánasafni Íslandsbanka og íbúðalán eru 40% af safni Arion banka, sem er stærsta íbúðalánasafnið á eftir Íbúðalánasjóði. Neikvæður skellur í ferðaþjónustunni – stærstu útflutningsgrein landsins um þessar mundir – gæti þó haft talsverð áhrif á afkomu bankanna vegna útlánataps og lækkunar í eignaverði.

Gæði eignasafna bankanna og batnandi eiginfjárstaða íslenskra heimila endurspeglast síðan í lækkandi vanskilahlutföllum, sem nemur 2,3% að meðaltali, en voru allt að 12% fyrir fjórum árum.

Innlánasafn dregst saman

Innlánasafn bankanna dróst saman á fyrstu níu mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra, úr 1.646 milljörðum í 1.544 milljarða og jafngildir það um 7% samdrætti. Ástæðuna má rekja til þess að einstaklingar tóku innlán í bönkunum til fjárfestinga erlendis í kjölfar þess að lög um losun fjármagnshafta voru samþykkt í október.

Innlendur sparnaður er eftir sem áður helsti fjármögnunarstofn bankakerfisins, þar sem hlutfall innlána af skuldum bankanna er 60% en var rúmlega 65% í septemberlok 2015.

Allir bankarnir þrír hafa gefið út skuldabréf á erlendum mörkuðum á góðum kjörum á árinu að jafnvirði um 205 milljarða króna í evrum, bandaríkjadölum, sænskum krónum og norskum krónum með góðum árangri. Skuldabréfaútgáfa erlendis er liður í að liðka fyrir afnámi gjaldeyrishafta og draga úr fjármögnunarkostnaði, en erlend fjármögnun er á bilinu 10-15% af efnahagsreikningi bankanna. Miðað við lækkandi vaxtaálag á eftirmarkaði er talsverð eftirspurn eftir skuldabréfum bankanna ytra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .