„Það er óásættanlegt að svo lítill hópur geti raskað stórkostlega lífsnauðsynlegum samgöngum við Ísland með miklum efnahagslegum skaða,“ að mati Samtaka atvinnulífsins (SA). Á vef samtakanna er fjallað um verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair. SA segir það hafa áhrif á um 600 flug og um 100 þúsund flugfarþega þá níu daga sem tímabundin vinnustöðvun nær til frá í dag og til 3. júní næstkomandi.

Í grein SA um verkfallið og áhrif  þess segir að mikilvægt sé að samkomulag náist í deilunni sem fyrst svo Íslendingar geti flogið til og frá landinu samkvæmt áætlunum og vaxandi ferðaþjónusta jafnframt tekið á móti erlendum ferðamönnum sem vilja kynna sér land og þjóð.

„Hver dagur veldur stórtjóni hvort sem litið er til flugfélagsins, ferðaþjónustunnar, útflutningsfyrirtækja eða orðspors landsins almennt. Á þessu tímabili er hlutdeild Icelandair í flugi til og frá landinu 70% auk þess sem flug til Bandaríkjanna mun nánast leggjast af. Röskun á samgöngum til og frá landinu verður mjög mikil.  Ætla má að þjóðfélagið verði af einum milljarði króna fyrir hvern dag sem vinnustöðvun stendur yfir og er þá ekki tekið tillit til alvarlegra langtímaafleiðinga sem af kunna að hljótast,“ að mati SA.