Flugfélagið Southwest Airlines hefur pantað hundrað Max þotur frá flugvélaframleiðandanum Boeing, en það er stærsta pöntun sem Boeing hefur tekið á móti frá því Max vélarnar voru kyrrsettar árið 2019 eftir tvö banvæn flugslys. Þetta kemur fram í frétt CNN .

Um er að ræða 150 sæta þotur af gerðinni Max 7 og áætlar Southwest að fá fyrstu 30 í upphafi næsta árs. Félagið samþykkti einnig kauprétt á 155 þotum til viðbótar, en allur floti félagsins samanstendur af Boeing þotum.

Southwest hefur raunar aldrei keypt aðrar vélar en Boeing 737 og átti fyrir fleiri 737 Max vélar en nokkurt annað flugfélag í heiminum. Viðskiptalíkan félagsins byggir enda á því að notast eingöngu við eina tegund þota til að draga úr kostnaði vegna þjálfunar flugmanna og varahluta.

Kyrrsetning reyndi á viðskiptasambandið

Árið 2019, þegar Max vélar Boeing voru kyrrsettar, reyndi þó á viðskitpasamband Southwest og Boeind, en forstjóri flugfélagsins kvaðst þá ósáttur við þá stöðu sem komin væri upp, en á þeim tíma voru 34 Max vélar í flota félagsins.

Undir lok árs gáfu forsvarsmenn Southwest það út að þeir íhuguðu panta vélar frá helsta samkeppnisaðila Boeing, Airbus, sem hefði verið reiðarslag fyrir Boeing, bæði hvað varðar fjárhag og stolt. Tíðindin eru því mikið fagnaðarefni fyrir Boeing en tilkynning um pöntunina var gefin út á 50 ára afmæli samnings Southwest og Boeing um fyrstu þrjár vélar félagsins.