Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra staðfesti á Alþingi í dag að Davíð Oddsson seðlabankastjóri hefði á ríkisstjórnarfundi í september sl. lagt til myndun þjóðstjórnar.

Þetta var meðal þess sem fram kom í svari ráðherrans við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Birkir spurði ráðherrann út í þær fullyrðingar Davíðs að stjórn Seðlabanka Íslands hefði á undangengnum mánuðum margvarað ráðherra ríkisstjórnarinnar við hruni bankanna.

Það hefði m.a. verið gert á fundi yfirstjórnar Seðlabankans og ráðherra ríkisstjórnarinnar í júní sl. Birkir sagði á Alþingi í dag, og vitnaði til ummæla Davíðs á fundi viðskiptanefndar í morgun, að á júnífundinum hefði komið fram að „núll prósent líkur væru á því að bankarnir myndu lifa af aðsteðjandi erfiðleika."

Hitti Davíð ekki í eitt ár

Björgvin svaraði því til að hann hefði ekki verið á umræddum fundi. „Ég fundaði með seðlabankastjórunum í nóvember 2007 og hitti Davíð Oddsson næst tæpu ári síðar, á fundi ríkisstjórnar sem margfrægt er í september, þegar hann kom þar inn og lagði til myndun þjóðstjórnar. Það var í fyrsta sinn sem ég hitti þann ágæta mann frá því í nóvember 2007."

Björgvin sagði að Seðlabankinn hefði það hlutverk lögum samkvæmt að hafa eftirlit með fjármálalegum stöðugleika í landinu. Í skýrslu bankans frá því í maí hefði komið fram að staða íslensku bankanna væri almennt góð borin saman við stöðu bank annars staðar í heiminum.

„Hvað fór fram á einhverjum fundum, óskilgreindum fundum seðlabankastjóra og einhverra ráðherra, hef ég ekki hugmynd um," sagði Björgvin.

Síðar sagði hann: „Af hverju seðlabankastjóri kaus að kynna mér ekki viðhorf sín sem ekki koma fram í gögnum bankans, formlegum og opinberum, [...] hef ég ekki hugmynd um. Hann hlýtur að þurfa að svara fyrir það einhvers staðar annars staðar nema hann bregði fyrir sig bankaleynd."