Síminn og Skjár Einn áforma í vikunni að hefja hringferð sína um landið til þess að færa íbúum tíu bæjarfélaga á landsbyggðinni Skjá Einn og enska boltann. Hringferðin hefst í Bolungarvík og hyggjast Síminn og Skjár Einn bjóða Bolvíkingum til fjölskylduhátíðar í félagsheimilinu Víkurbæ kl. 17:00, fimmtudaginn 25. nóvember. Á hátíðinni verður þjónusta Símans kynnt auk þess sem Skjár Einn verður með ýtarlega kynningu á vetrardagskrá sinni. Framkvæmdastjóri Skjás Eins og nokkrir vel valdir dagskrárgerðarmenn mæta til kynningar á dagskránni. Daginn eftir verður svo fjölskylduhátíð á Patreksfirði.

Enski boltinn er vinsælt sjónvarpsefni og eftirspurn eftir honum mikil segir í tilkynningu frá Símanum. Þau bæjarfélög sem hófu söfnun fyrir sjónvarpssendum til að geta tekið á móti merki Skjás Eins njóta forgangs í aðgangi að þessari nýju þjónustu Símans og Skjás Eins. Staðirnir sem um ræðir eru Bolungarvík, Djúpivogur, Fáskrúðsfjörður, Grundarfjörður, Hvammstangi, Ólafsfjörður, Ólafsvík, Patreksfjörður, Stykkishólmur og Vopnafjörður og fá þau að öllu óbreyttu sjónvarpsþjónustu fyrir jól. Nánari upplýsingar um hvenær Síminn og Skjár Einn verða á ferðinni í þessum bæjarfélögum er að finna á vef Símans, siminn.is. Þjónustan verður síðan boðin á fleiri stöðum á landsbyggðinni í áföngum á næsta ári.

Í stað hefðbundinnar þráðlausrar dreifingar er sjónvarpsmerkið flutt um símalínur með hjálp ADSL tengingar. Viðskiptavinir geta horft á sjónvarpið samtímis því að vafra á Internetinu. Í þessum áfanga munu núverandi viðskiptavinir ADSL þjónustu Símans njóta forgangs hvað varðar uppsetningu þjónustunnar.

Boðið verður upp á áskriftarleiðina ?Topp 10" og hafa viðskiptavinir þar aðgang að sjö erlendum sjónvarpsstöðvum auk þriggja íslenskra, samtals 10 stöðvum með fjölbreyttu og skemmtilegu efni og er mánaðargjaldið fyrir þær 1.695 kr. Stöðvarnar sem um ræðir eru Skjár Einn, Enski boltinn (fleiri beinar útsendingar), RÚV, Eurosport, Sky News, Discovery Channel, Cartoon Network, BBC Prime, MTV og DR1. ADSL viðskiptavinir Símans á ofangreindum stöðum geta fengið frían aðgang að þremur stöðvum, RÚV, Skjá Einum og Enska boltanum ef skráning fer fram fyrir 15. desember. Af tæknilegum ástæðum geta íbúar Fáskrúðsfjarðar eingöngu fengið aðgang að þessum þremur fríu sjónvarpsstöðvum í upphafi. Uppsetning þjónustunnar verður gjaldfrjáls til 15. janúar og fer skráning eingöngu fram á vef Símans, siminn.is/skjareinn.

Með því að dreifa stafrænu sjónvarpsefni um ADSL kerfið er Síminn að nýta þá miklu fjárfestingu sem liggur í fjarskiptakerfum fyrirtækisins og flýta fyrir almennri uppbyggingu dreifikerfisins víðar um landið, umfram það sem áður hefur verið hagkvæmt segir í tilkynningu félagsins.

Með dreifingunni um ADSL kerfi Símans er Skjár Einn að auka dreifingu á sínu efni. Um það bil 80% heimila landsins hafa fram að þessu náð útsendingum Skjás Eins á Breiðbandi Símans eða með örbylgju- eða UHF loftnetum og eykst dreifingin jafnt og þétt. Skjár Einn hóf göngu sína 20. október 1999 og varð á skömmum tíma einn vinsælasti fjölmiðill landsins. Frá upphafi hefur áhersla verið lögð á fjölbreytta innlenda dagskrárgerð auk sýningar vandaðra erlendra þátta og stendur sala auglýsinga straum af öllum rekstri stöðvarinnar. Auk þess að vera valinn vinsælasti fjölmiðill landsins ár eftir ár hefur Skjár Einn einnig fengið hæstu einkunn fjölmiðla þegar spurt er um hvaða miðil fólk noti helst þegar það vill slappa af.