Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson standa við hluta þeirra ummæla sem þeir létu falla á Klaustur 20. nóvember síðastliðinn. Siðanefnd Alþingis hefur skilað ráðgefandi áliti sínu til ad hoc forsætisnefndar en í því kemur fram að þingmennirnir tveir hafi farið á svig við siðareglur. Anna Kolbrún Árnadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson brutu aftur á móti ekki gegn reglunum.

Sagt er frá málinu í Morgunblaði dagsins og álit nefndarinnar, sem og andsvör þingmannanna, birt. Brot Gunnars Braga fólust í orðum sem hann lét falla um sundkonuna Ragnheiði Runólfsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherrann Lilju Alfreðsdóttur og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur þingkonu Samfylkingarinnar.

„Það getur vel verið að við ákveðnar aðstæður, ég ætla ekki að segja hvaða aðstæður, að ég þurfi að labba að henni og segja: Ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér?“ sagði Gunnar Bragi meðal annars um Albertínu.

Ummæli Bergþórs um fyrrgreinda Lilju og Albertínu voru einnig ekki í samræmi við það sem reglurnar kveða á um. Þá þóttu orð um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, og Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, einnig ósæmileg.

„Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt,en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur,“ sagði Bergþór um Írisi.

„Það er augljóst í þessu samhengi að það hefur fallið á frambjóðandann, hann er ekki „eins hot“ og hann var áður, hann er ekki eins sterkur osfrv. [sic!] Það þarf sérstakan vilja til að heyra aðeins kynferðislegan undirtón í þessum ummælum,“ segir í málsvörn Bergþórs fyrir nefndinni.

Hvorki hann né Gunnar Bragi telur neitt óeðlilegt í ummælum sem féllu um áðurnefnda Albertínu. Báðir fullyrtu þeir að hún hefði verið mjög ágeng við þá og jaðrað hafi við að hún hafi reynt að nauðga þeim. Bergþór segir í andmælaskjali sínu að hann hefði enn ekki beðist afsökunar á orðum sínum og ætli ekki að gera. Hann sé útmálaður sem gerandi þegar staðan sé þveröfug.

„Þarna er ég að lýsa erfiðri reynslu sem ég varð fyrir í einkasamtali á meðal vina. Ég er að lýsa því þegar núverandi þingkona gekk svo nærri mér kynferðislega að ég var lengi að átta mig á því hvað hafði gerst. Og ég má ekki tala um það í einkasamtölum!“ segir Bergþór.

„Í ólöglegu upptökunum eru tveir einstaklingar að segja frá miður góðum kynnum sínum af þingkonunni og hvernig hún áreitti þá. Allt það sem þar er sagt stend ég við en vil þó taka fram, líkt og ég gerði við viðkomandi, að notkun á orðinu „nauðgun” var of gróft og var hún beðin afsökunar á þeirri orða notkun,“ segir Gunnar Bragi og bætir við: „Það er hreint með ólíkindum að nefndin telji að frásögn af því sem verður ekki skýrt með orðum en sem lýsingu á áreiti sé brot á siðareglum. Er nefndin að hvetja til þess að slík mál séu ekki rædd af þingmönnum við vini eða kunningja ef tilefni er til?“

Varaforsætisnefndin hefur enn ekki afgreitt málið frá sér en mun vafalaust hafa ráðgefandi álit siðanefndar til hliðsjónar.