Gjaldþrot General Motors Corp. er ekki lengur talið fjarlægur möguleiki í ljósi þess að lykilfyrirtæki á verðbréfamarkaði á Wall Street, Standard & Poor, færði skuldabréf og lánshæfismat GM á mánudag niður á ruslsvæði lítt áhugaverðra bréfa, eða svokallað "junk territory".

Samkvæmt frétt The Detroit News endurspeglar ákvörðun Standard & Poor áhyggjur manna um að GM geti ekki ráðið við að greiða skuldir sínar samfara vaxandi tapi. Í því felist líka miklar efasemdir um að hægt sé að snúa rekstrinum við.

Scott Sprinzen, sérfræðingur hjá Standard & Poor's, segir að í fortíðinni hafi þeir hugsanlega haft aðra sýn á fyrirtækinu og að tal um mögulegt gjaldþrot væri skot vel yfir markið. "En á þessum tímamótum er það okkar niðurstaða að þetta sé ekki fjarlægur möguleiki ef hnignun fyrirtækisins sem við höfum horft á undanfarin misseri heldur áfram."

Niðurfærsla á mati bréfa í GM er nýjasta höggið sem ríður yfir fyrirtækið. Kemur þetta í kjölfar nærri fimm milljarða dollara taps (317 milljarða íslenskra króna) á rekstri starfsemi GM í Norður-Ameríku á þessu ári.

Áhættustuðull vegna skulda GM er færð niður af S&P í B úr BB- í kjölfar áframhaldandi minni sölu á framleiðslu fyrirtækisins í Bandaríkjunum og minnkandi markaðshlutdeild. Þá lýsir fyrirtækið yfir efasemdum um að ný gerð GM af stórum fjórhjóladrifsbíl 2006 muni bæta stöðuna þar sem kaupendur séu í ríkara mæli að skipta yfir í sparneytnari bíla.

The Detroit News telur að þessi niðurstaða S&P endurspegli einnig áhyggjur um að GM komi illa út úr samskiptum við hið gjaldþrota íhlutafyrirtæki Delphi Corp. Þar hangir 12 milljarða dollara eftirlaunakrafa um háls GM sem á rætur að rekja til þess er Delphi Corp. var aðskilið frá rekstri GM árið 1999.