*

mánudagur, 1. mars 2021
Erlent 15. janúar 2021 07:04

Starbucks stuðli að bættu sambandi

Forseti Kína biður Starbucks og fyrrum forstjóra þess að stuðla að bættu viðskiptasambandi Kína og Bandaríkjanna.

Ritstjórn
Howard Schultz er heiðursstjórnarformaður Starbucks
european pressphoto agency

Fréttastofan Xinhua, sem rekin er af kínverskum yfirvöldum, segir Xi Jinping, forseta Kína, hafa skrifað Howard Schultz, fyrrum forstjóra Starbucks, og beðið bandaríska milljarðamæringinn og alþjóðlega kaffirisann sem hann stýrði um árabil, að beita sér fyrir bættu viðskiptasambandi Kína og Bandaríkjanna.

Í frétt CNN er haft eftir heimildarmanni sem til þekkir að bréf forsetans sé svar við skilaboðum sem Schultz sendi forsetanum ásamt þýddu eintaki af nýjustu bók milljarðamæringsins, "From the Ground Up: A Journey to Reimagine the Promise of America". Í bréfinu með bókinni er Schultz sagður hafa áréttað áralanga hollustu Starbucks við Kína og starfsmenn kaffirisans þar í landi.

Samkvæmt Xinhua, hvatti forsetinn Schultz og Starbucks til þess að halda áfram að stuðla að bættu sambandi milli landanna. Þá mun forsetinn hafa lagt áherslu á að Kína ynni að því að verða enn aðgengilegra alþjóðlegum fyrirtækjum, þar á meðal Starbucks og öðrum bandarískum fyrirtækjum.

Reisi ekki veggi en byggi brýr

Howard Schultz lét af störfum sem forstjóri Starbucks árið 2017 en gegndi áfram stjórnarformennsku til ársins 2018. Þegar hann hætti í stjórn kaffirisans hlaut hann nafnbótina "Chairman emeritus", og er því nokkurs konar heiðursstjórnarformaður Starbucks án þess að því fylgi starfsskylda.

Schultz hefur tekið virkan þátt í stjórnmálaumræðunni vestanhafs og íhugaði um tíma framboð fyrir síðustu forsetakosningar. Árið 2018 tjáði hann sig um samskipti Bandaríkjanna og Kína, hvar hann sagði tolla á kínverskan innflutning ekki til þess fallna að bæta atvinnuástand í Bandaríkjunum.

Þá sagði hann að í hvert sinn sem Bandaríkin lendi í viðskiptastríði hafi það skilað sér í efnahagsniðursveiflu. Bandaríkin ættu því ekki að reisa veggi af neinu tagi heldur byggja brýr.